Ferill 598. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1448  —  598. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Evu Sjöfn Helgadóttur um innritun í verk- og iðnnám.


     1.      Hvað hyggst ráðherra veita fjármagn fyrir innritun margra nemenda í Tækniskólann í haust?
    Í fjárlagafrumvarpi 2023 er gert ráð fyrir fjölgun nemendaígilda við Tækniskólann um 100 ársígildi, þ.e. úr 2.300 í 2.400. Miðað við meðaleiningafjölda nemenda í starfsnámi þá lætur nærri að þetta sé fjölgun sem samsvarar 140 nemendum.

     2.      Hvaða augum lítur ráðherra þá staðreynd að hundruðum umsókna um nám í verk- og iðngreinum er hafnað ár hvert?
    Ríkisstjórnin lítur þá stöðu alvarlegum augum og hafa stjórnarflokkarnir lagt áherslu á að efla iðn- og verknám í stjórnarsáttmálanum. Vægi starfsnáms hefur aukist undanfarin ár, í takt við áherslur stjórnvalda, sem hefur skapað ýmsar áskoranir. Til að bregðast við þeim skipaði ráðherra starfshóp síðastliðið sumar með aðkomu sérfræðinga og hagaðila til að rýna innritun nemenda í starfsnám og ástæður fyrir höfnun umsókna. Síðastliðið haust skilaði sá hópur skýrslu með tillögum að aðgerðum. Meginskýringarnar reyndust vera annars vegar skortur á húsnæði og hins vegar skortur á kennurum. Ráðherra beindi þeim tilmælum til starfsmenntaskólanna á haustönn 2022 og vorönn 2023 að fullnýta sínar heimildir og var svigrúm þeirra aukið í fjárlögum 2023. Þess má geta að ef litið er á skólaárið 2022–2023 hefur tekist að snúa þessari þróun við þannig að þeim einstaklingum sem ekki fengu skólavist fækkaði nokkuð frá fyrra skólaári.

     3.      Hefur ráðherra uppi áform um að auka fyrirsjáanleika í fjárveitingum fyrir Tækniskólann?
    Ráðuneytið er með þjónustusamning við Tækniskólann um kennslu og þjónustu skólans. Sá samningur er endurskoðaður reglulega. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að reisa skuli nýjar höfuðstöðvar skólans í Hafnarfirði og er verkefnahópur að störfum að vinna að þeim málum.

     4.      Hvaða aðgerðir er ráðherra með í undirbúningi og hefur komið til framkvæmda til að auka aðgengi að verk- og iðnnámi?
    Til að bregðast við höfnun umsókna nemenda um starfsnám var ákveðið að fjölga nemendaígildum í starfsnámsskólum þegar á vorönn í fjárlögum 2023. Jafnframt er í ráðuneytinu unnið að því að rýna í þörf fyrir húsnæði starfsmenntaskólanna næsta áratuginn. Á grundvelli þeirrar vinnu hefur ráðherra lagt fram minnisblað í ríkisstjórn með framkvæmdaáætlun um stækkun við níu starfsmenntaskóla um landið allt. Um er að ræða u.þ.b. 11.000 fermetra stækkun auk nýbyggingar Tækniskólans.

     5.      Er ráðherra með sérstakar aðgerðir til að auka aðgengi eldri nemenda að verk- og iðnnámi í undirbúningi eða hefur komið til framkvæmda?
    Í tillögum starfshópsins, sem vísað er til svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar, var lagt til að auka aðgengi að raunfærnimati til styttingar á formlegu námi innan framhaldsskóla fyrir einstaklinga sem eru 20 ára og eldri og hafa sérstakir fjármunir verið teknir til hliðar til að mæta þeim kostnaði. Til að gera framhaldsskólunum betur kleift að sinna þessum hópi hefur ráðuneytið gert samning við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Jafnframt er áformað að eldri nemendur fái rýmri tímafresti við innritun og að ný stofnun um skólaþjónustu muni fá aukið hlutverk við innritun nemenda, m.a. við að miðla lausum plássum á milli skóla svo að nemendur fái ekki höfnun að ósekju. Auk þess mun verða lögð áhersla á aukna samvinnu skóla við kennslu einstakra greina líkt og dæmi eru um t.d. í sjúkraliðanámi.